Fara í efni

Spurt og svarað

Samningurinn

  • Hvernig skila ég bílnum?

    Bílnum skal skilað þrifalegum í lok samnings á sömu útleigustöð og hann var tekinn á leigu. Sé bíllinn mjög óhreinn áskilur Bílaleiga Akureyrar sér rétt til að þrífa bílinn á kostnað ökumanns. Starfsmaður ásamt leigutaka/ökumanni yfirfara bílinn við skil og fara yfir ástand bílsins. Vakin er athygli á því að leigutaka ber að skila bílnum fullum af eldsneyti.

  • Er hægt að segja upp eða breyta leigusamningi

    Ef upp koma breyttar aðstæður hjá leigutaka sem kalla á annarskonar bíl, breytingu eða jafnvel riftun á langtímaleigusamningi þá gerum við ávallt okkar besta til að verða við slíkum óskum þó slíkt kunni óneitanlega í einhverjum tilfellum að hafa kostnað í för með sér.

  • Er hægt að leigja bíl í minna en 12 mánuði?

    Já hægt er að gera samning allt niður í þrjá mánuði. Ef þú hefur áhuga á styttri eða lengri leigutíma eða meiri eða minni akstursnotkun hafðu þá endilega samband við okkur. Við erum ávallt reiðubúin að sérsníða ákvæði leigusamningsins um leigutíma og akstursnotkun að þörfum hvers og eins. Við bjóðum einnig upp á vetrarleigu á bíl á tímabilinu 1. október til 1. júní ár hvert. Leigutími þar er nokkuð sveigjanlegur en í boði er að taka bíl á vetrarleigu frá þremur mánuðum upp í átta mánuði, ef bíll er tekinn snemma hausts.

  • Hvað ef ég keyri umfram innifalda kílómetra á mánuði?

    Ef ljóst er að innifaldir kílómetrar duga ekki út leigutímann, er hægt að bæta kílómetrum við með því að hafa samband við okkur og við förum yfir málin og hækkum verðið á samningnum miðað við aukna kílómetra. Eins er hægt að keyra bara áfram og gera umframaksturinn upp við skil. Á langtímaleigusamningnum kemur fram hvert gjaldið er fyrir hvern ekinn umfram kílómeter.

  • Hvað er leigutími langur?

    Leigutími í langtímaleigu getur verið allt frá 3 að 36 mánuðum, einnig er hægt að fá samninga á rafbíla í allt að 48 mánuði. Algengast er að gerðir séu 12, 24 og 36 mánaða samningar. Vetrarleiga er í boði frá 1. október til 1. júní ár hvert. Leigutími þar getur verið frá þremur mánuðum upp í átta mánuði ef bíll er tekinn snemma hausts. 

  • Hvaða skilríki, pappíra eða kort þarf ég að sýna við upphaf leigu?

    1. Gilt ökuskírteini ásamt því að leigutaki þarf að hafa haft ökuskírteini í að minnsta kosti eitt ár.
    2. Kreditkort leigutaka sem er í gildi þegar leiga hefst.

  • Hver er lágmarksaldur til að leigja bíl á langtímaleigu?

    Lágmarksaldur er 20 ár og leigutaki þarf að hafa haft ökuskírteini í að minnsta kosti eitt ár.

  • Hvað er innifalið í langtímaleigu á bíl?

    Innifalið í langtímaleigunni eru bifreiðagjöld og lögboðin ökutækjatrygging auk kaskótryggingar. Allt venjubundið viðhald bílsins, allar reglubundnar þjónustuskoðanir og smurþjónusta ásamt þurrkublöðum og ljósaperum er innifalið í leigugjaldinu. Sumar- og vetrardekk eru innifalin ásamt dekkjaskiptum. 

Greiðslur

  • Hvað kostar langtímaleiga á bíl ?

    Hér á síðunni er reiknivél. Þú smellir einfaldlega á Bílar og verð í hausnum á síðunni og velur þann bílaflokk og bíl sem þú telur að þjóni þínum þörfum. Þar getur þú skoðað verð miðað við ólíkan akstur og leigutíma. Þú getur líka sett bíla í samanburð og einfaldað þér þannig að komast að niðurstöðu. Leigugjald í langtímaleigu er verðtryggt eftir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

  • Hvernig fara greiðslur fram?

    Greiðslur eru skuldfærðar á kreditkort leigutaka mánaðarlega. Við upphaf leigu greiðir leigutaki að lágmarki fyrir tvo mánuði þ.e. líðandi mánuð ásamt andvirði eins mánaðar leigu í tryggingafé. Tryggingafé endurgreiðist við uppgjör að leigu lokinni ef engin vanskil eru á samningnum og ekkert nýtt tjón sé á bílnum. Við undirbúning leigugagna samþykkir umsækjandi jafnframt að Höldur ehf. leiti upplýsinga um leigutaka hjá Creditinfo.

  • Hvað með reikningsviðskipti?

    Óski viðskiptavinur bílaleigunnar eftir því að komast í reikningsviðskipti skal hann fylla út Umsókn um viðskipti á þar til gerðu eyðublaði, undirrita eyðublaðið og senda það á netfangið vidskipti@holdur.is. Við undirritun umsóknar samþykkir umsækjandi um leið að Höldur ehf. leiti upplýsinga um umsækjanda hjá Creditinfo. Í reikningsviðskiptum er skilgreind hámarksúttekt að undangengnu samþykki Hölds ehf.

  • Hvað er kílómetragjald á rafmagns- og tengiltvinnbíla og afhverju er það innheimt?

    Í ársbyrjun 2024 var tekið upp kílómetragjald fyrir akstur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla. Kílómetragjald er áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til heimila og fyrirtækja. Þannig er greitt mánaðarlega og byggt á fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu. Gjaldtakan byggir á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem umráðamenn bíla skrá inn. 

    Gjaldið er 6 krónur fyrir hvern ekinn kílómeter á rafmagns- og vetnisbíla en fyrir tengiltvinnbíla er gjaldið lægra, eða 2 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra.

    Leigutakar slíkra bíla geta skráð km stöðuna hér.

Tryggingar

  • Hvar er bíllinn tryggður?

    VÍS.

  • Hvernig er bíllinn tryggður?

    Innifalið í leigugjaldi er lögboðin öku­tækja­trygg­ing sem inni­felur ann­ars vegar ábyrgðartrygg­ingu gagnvart þriðja aðila og hins vegar slysa­trygg­ingu öku­manns og farþega. Auk þess er kaskótrygging með tilgreindri eigin áhættu innifalin.

  • Get ég lækkað sjálfsábyrgð kaskótryggingar gegn ákveðnu gjaldi?

    Já við bjóðum viðskiptavinum þrjá útfærslur af tryggingavernd. Grunnvernd er sjálfkrafa innifalin í mánaðargjaldinu ef önnur leið er ekki valin. Gegn fastri mánaðarlegri greiðslu getur þú lækkað eigin áhættu kaskótryggingar enn frekar með því að uppfæra í Miðlungs- eða Úrvalsvernd. Sjá nánar um tryggingar hér.

  • Er ég tryggð/ur ef ég er að draga kerru, fellihýsi eða hjólhýsi?

    Ávallt skal huga vel að því að skráðir eftirvagnar séu tryggðir, í góðu ástandi og skoðaðir. Það er á ábyrgð leigutaka að þessir hlutir séu ávallt í lagi og samkvæmt lögum og reglum.

    • Ökumaður bílaleigubíls er eigandi ferðavagns: Hér bætir kaskótrygging ferðavagns tjónið.
    • Ökumaður bílaleigubíls er ekki eigandi ferðavagns: Hér bætir ábyrgðartrygging bílsins tjón á ferðavagni.

Þjónusta

  • Hvað gerist ef þjónustan tekur langan tíma?

    Ef þjónusta við bílinn þinn tekur lengri tíma en eina klukkustund færð þú lánaðan bíl á meðan án endurgjalds. Þegar lánsbíl er skilað skal ávallt skila bílnum með fullum tank af eldsneyti.

  • Hvert fer ég með bílinn í dekkjaskipti eða smurþjónustu?

    Dekkja- og smurþjónusta fer fram á þjónustumiðstöð okkar í Skútuvogi 8 Reykjavík og á þjónustustöðvum okkar á Akureyri. Sé bifreiðin staðsett utan þessara stöðva þá vinsamlegast hafið samband. Tímapantanir í dekkjaskipti og smurþjónustu fara fram hér vefnum - sjá tengil á forsíðu.

  • Er rúðuvökvi og Adblue innifalið í langtímaleigunni?

    Rúðuvökvi, Adblue og eldsneyti er ekki innifalið í langtímaleigu.

Aukabúnaður

  • Má ég setja aukahluti á langtímaleigubílinn minn?

    Já það er leyfilegt er að setja t.d skíðaboga, hjólafestingar og farangursbox á bifreiðina. Skemmdir og/eða tjón sem kann að leiða af notkun slíks búnaðar er þó ávallt á ábyrgð leigutaka.

  • Má merkja bílinn sem ég er með á langtímaleigu?

    Já heimilt er að láta merkja bílinn að óskum leigutaka. Leigutaki sér sjálfur um það og ber kostnað af því verki. Að lokinni leigu skal bílnum skilað án merkinga. Leigutaki er ábyrgur fyrir þeim skemmdum sem kunna að hljótast af vegna merkinga, s.s glæru- eða lakkskemmda.

  • Er hægt að fá bíl með dráttarbeisli?

    Já það er hægt gegn gjaldi en þó misjafnt eftir flokkum og tegundum. Bílarnir okkar eru alla jafna ekki með dráttarbeisli. 

Tjón og óhöpp

  • Hvað geri ég ef langtímaleigubíllinn minn bilar ?

    Best er að hafa samband við Langtímaleigudeildina í síma 461-6000 og tilkynna um bilunina. Í framhaldi gerum við viðeignadi ráðstafanir. Við kappkostum að veita sem besta þjónustu hverju sinni og leysa öll mál bæði hratt og vel.

  • Hvað geri ég ef það springur dekk hjá mér?

    Undir venjulegum kringumstæðum setur ökumaður sjálfur varadekkið undir bílinn og kemur svo með bílinn á þjónustustöð Bílaleigu Akureyrar, þ.e. Skútuvog 8 í Reykjavík eða Gleráreyrar 4 á Akureyri. Þar er metið hvort hægt er að gera við dekkið eða setja þurfi nýtt dekk undir. Leigutaki ber sjálfur kostnað af skemmdu dekki og kostnaði sem af hlýst (nema ljóst sé að dekkið sé sprungið vegna slits).

  • Fæ ég annan bíl á meðan langtímaleigubíllinn minn er í viðgerð?

    Já, taki þjónustan lengri tíma en eina klukkustund fær leigutaki bifreið til afnota á meðan langtímaleigubíllinn er á verkstæði. Þegar lánsbíl er skilað skal ávallt skila honum með fullum tank.

  • Hvað geri ég ef ég lendi í tjóni?

    Ef svo óheppilega vill til að þú lendir í tjóni þarf að fylla út tjónaskýrslu sem er að finna í hanskahólfi bílsins og skila inn undirrituðu eintaki á næstu útleigustöð okkar. Hér á vefnum er hægt að skila inn upplýsingum um óhapp með rafrænum hætti og flýta þannig fyrir allri úrvinnslu. Nánar hér

Eftirlitsbúnaður sem nýtir staðsetningartækni (ökuritar)

  • Hvað er eftirlitsbúnaður sem nýtir staðsetningartækni?

    Eftirlitsbúnaður sem nýtir staðsetningartækni (GPS) er stundum einnig nefnt ökuriti eða tracker. Búnaðinum er komið fyrir í bílnum, hann sendir síðan upplýsingar í hugbúnað frá fyrirtækinu Telematics.

  • Af hverju er eftirlitsbúnaður sem nýtir staðsetningartækni í bílum fyrirtækisins?

    Búnaðurinn getur verið nýttur til að staðsetja og finna bifreiðar sem hefur verið stolið eða eru týndar. Upplýsingar úr kerfinu geta nýst í neyðartilfellum t.d. við björgunarstörf eða neyðaraðstoð ef upp koma slys, tjón, bilanir eða ef leita þarf að fólki eða ökutækjum í öðrum neyðartilfellum. Upplýsingarnar geta verið nýttar við vinnslu tjónamála og vátryggingakrafna. Upplýsingar úr ökuritum sanna akstur og kílómetrastöðu bifreiða með óvíkjandi hætti og það er fyrirtækinu mikilvægt að geta sýnt fram á það við sölu notaðra bifreiða.

  • Hvaða gögnum er safnað?

    Búnaðurinn safnar upplýsingum um staðsetningu, ökuhraða, hröðun, upplýsingar um högg (staðsetningu, þyngdarafl og stefnu höggs) auk upplýsingar um staðsetningu og virkni tækis. Gögn eru geymd í fjögur ár.

  • Er alltaf fylgst með mér?

    Nei! Ekki er fylgst með staðsetningu eða akstri einstakra bifreiða nema gild ástæða sé til samkvæmt því sem fram kemur í ákvæði um ökurita í persónuverndarstefnu Hölds ehf. Ökuritinn sendir hins vegar stöðugt upplýsingar inn í kerfið en eins og áður segir er ekki fylgst með ferðum viðskiptavina í kerfinu án gildrar ástæðu.

  • Er hægt að leigja bíl án eftirlitsbúnaðar?

    Nei, eftirlitsbúnaður (ökuriti) er í öllum bifreiðum fyrirtækisins og ekki er hægt að leigja bíla án hans.